Aðildarfélagar SVEIT greiddu atkvæði um endurskoðaðan kjarasamning við stéttarfélagið Virðingu fyrir helgi og var niðurstaðan sú að samningurinn var samþykktur með 95% atkvæða.
Endurskoðun samningsins hófst um miðjan desember eftir að ábendingar bárust um einstök atriði samningsins. Þá kom fram gagnrýni verkalýðshreyfingarinnar á samninginn, sem að langstærstu hluta byggðist á rangri túlkun, misskilningi og ólíkri sýn á eðli og stöðu fyrirtækja á veitingamarkaði.
Óskað var eftir að lögfræðistofan Lögmenn Laugavegi 3 (LL3), sem sérhæfir sig í vinnurétti, félagarétti og jafnréttismálum á vinnumarkaði, yfirfæri kjarasamninginn og kæmi með ábendingar til breytingar. Að þeirri vinnu lokinni var samningurinn uppfærður með viðeigandi breytingum.
Kjarasamningurinn tekur sem fyrr mið af hinu Norræna rekstrarmódeli, þar sem fastráðið starfsfólk í greininni nýtur góðs af og skapar svigrúm fyrir fyrirtæki að gera betur við sitt kjarnastarfsfólk en áður hefur verið mögulegt. Þá skerpir samningurinn á einstökum atriðum, útskýrir betur önnur og ýmis ákvæði hafa verið uppfærð með tilliti til orðalags og aðstæðna.

Comments