Eru uggandi yfir fjögurra mánaða afturvirkni
- umsokn
- Jun 28, 2023
- 1 min read
Erfitt gæti reynst fyrir veitingastaði að greiða afturvirk laun ef miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA verður samþykkt. Þetta segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.
Sigrún Þuríður Runólfsdóttir
3. mars 2023 kl. 17:47, uppfært kl. 20:57

Veitingastaðir gætu átt erfitt með að greiða afturvirk laun, verði miðlunartillaga ríkissáttasemjara í kjaradeilu Eflingar og SA samþykkt. Þetta segir Aðalgeir Ásvaldsson, framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði.
„Við erum svolítið uggandi yfir fjögurra mánaða afturvirkni launahækkana miðað við það sem á undan er gengið. Ef greininni ber skylda til að greiða afturvirkt þá eru ansi margir rekstraraðilar í vanda staddir.“
Rekstraraðilum umhugað um starfsfólk sitt
Aðalgeir segir stöðuna í greininni og reynsluna af kjarasamningi SGS fyrir rekstraraðila úti á landi sýna slæma stöðu. Þetta snúist ekki um viljaleysi til að borga starfsfólki laun heldur um að geta haldið rekstrinum gangandi svo hægt sé að halda áfram að borga mannsæmandi laun.
Veitingahúsaeigendum sé vissulega umhugað um starfsfólk sitt og kjör þess.„En við setjum stórt spurningarmerki um að fá hvorki að kjósa um þessa kjarasamninga eða miðlunartillöguna núna,“ segir Aðalgeir.
Gæti orðið reiðarslag
Hann telur stöðuna geta orðið alvarlega. „Ég ætla nú ekki að vera með neina dómsdagsspá en þetta mun koma verulega illa niður á fyrirtækjum, sérstaklega þeim litlu og meðalstóru sem greinin byggir á. Ég held að það séu 95% af öllum rekstraraðilum á veitingamarkaði sem eru flokkaðir sem lítil eða meðalstór fyrirtæki og þetta verður reiðarslag fyrir marga.“
Frétt birt á vef RÚV:
https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-03-03-eru-uggandi-yfir-fjogurra-manada-afturvirkni
Comments