
FRÉTTATILKYNNING
Reykjavík 17.12.2024
EFLING HELDUR Í ÓSANNINDIN
Verkalýðsfélagið Efling heldur enn í ósannindi í nýrri yfirlýsingu, enda virðist forsvarsmönnum félagsins erfitt að viðurkenna að hafa misstigið sig í málflutningi. Hér vill Efling augljóslega frekar veifa röngu tré en öngvu, eins og orðatiltækið segir, sem ekki eykur tiltrú félagsmanna þeirra á starfinu.
Í yfirlýsingu Eflingar er gert mikið úr ættfræði og tilraunir gerðar til að rekja aftur tengsl einstakra Íslendinga, en slíkt er ekki erfitt á jafn litlu landi. Það að tengjast veitingageiranum með einum eða öðrum hætti, í nútíð eða fortíð, er gert tortryggilegt og virðast forsvarsmenn Eflingar fitna eins og púkinn á fjósbitanum við að gera ættartölur innan geirans. Og því miður virðist ættfræði ekki liggja betur fyrir fulltrúum Eflingar en afskipti af kjarasamningum annarra aðila, enda eru óskiljanlegar staðreyndarvillur að finna í upptalningu nafna og setu í stjórnum.
Minna fer hins vegar fyrir málefnalegum svörum við gagnrýni SVEIT á ofbeldisfullar aðgerðir og hótanir Eflingar í garð þeirra sem dirfast að semja um kaup og kjör án aðkomu verkalýðsfélagsins Eflingar. Harðri gagnrýni Eflingar á einstök atriði í kjarasamningi SVEIT og stéttarfélagsins Virðingar var fylgt eftir með beinum hótunum um harkalegar aðgerðir gegn rekstri veitingahúsa og afkomu starfsmanna þeirra, en talsvert hugarflug þarf til að snúa út úr einstökum atriðum samningsins og hrópa svo á torgum að um lögbrot sé að ræða. Samt vill Efling ekki fara lagaleg leið til að sýna fram á þessi meintu lögbrot, heldur skal knésetja þau fyrirtæki sem dirfðust að semja án aðkomu Eflingar. Í þeirri von að skapa frið á viðkvæmum markaði, samþykkti stjórn SVEIT að endurskoða ákveðin atriði kjarasamningsins, aðallega í því skyni að útskýra betur hið Norræna rekstrarmódel veitingastaða og þá afstöðubreytingu að gera betur við fastráðna starfsmenn en ungt lausafólk sem tekur stakar vaktir. Leiðir þetta til þess að fastráðnir starfsmenn fá hækkun um 150.000 – 200.000 krónur á ári. Endurskoðun kjarsamningsins stendur nú yfir og má búast við niðurstöðu innan fárra daga.
Eins og áður hefur komið fram hefur Efling gríðarlega hagsmuni af málinu en þúsundir starfsmanna veitingageirans greiða í sjóði Eflingar milljarð á ári og stéttarfélagið á því mikið undir að reyna að eyðileggja samningana með áróðri og árásum til að halda í þá fjármuni. Við hvetjum Eflingu til að láta af slíkum aðgerðum tafarlaust, enda valda þær miklum skaða fyrir greinina í heild, bæði starfsfólk og rekstraraðila, og fara frekar eftir viðurkenndum leiðum og fá dómstóla til að skera úr um gildi samningsins.
Comments