Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði eru ekki í Samtökum atvinnulífsins og taka því ekki þátt í boðuðu verkbanni. Samtökin eru rúmlega eins árs og vilja gera sérstakan kjarasamning.
Þórdís Arnljótsdóttir 26. febrúar 2023 kl. 12:44

Veitinga- og kaffihús sem aðild eiga að Samtökum fyrirtækja á veitingarekstri verða ekki lokuð verði af boðuðu verkbanni Samtaka atvinnulífsins. Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri samtakanna segir þau enga aðild eiga að kjarasamningagerð Samtaka atvinnulífsins og Eflingar.
Svo virðist sem að nokkurs misskilnings hafi gætt um það hvaða fyrirtæki heyra undir boðað verkbann Samtaka atvinnulífsins. Í óformlegri könnun Eflingar meðal félaga sinna hjá hinum ýmsu fyrirtækjum sem birt var á vef Eflingar í fyrradag eru talin upp fyrirtæki sem ekki ætla að taka þátt í verkbanni. Þeirra á meðal eru fyrirtæki í veitingageiranum. Um mitt ár 2021 voru Samtök fyrirtækja á veitingamarkaði stofnuð. Í þeim eru um 160 veitingarekendur með um þrjú hundruð fyrirtæki á öllu landinu. Þessi samtök, skammstöfuð SVEIT, eiga ekki aðild að Samtökum atvinnulífsins og hafa því ekkert haft um yfirstandandi kjaradeilu að segja.
„Við höfum krafið Eflingu um kjaraviðræður og auk þess er okkar skilningur á lagalegum ramma í kringum þetta, þar sem við erum ekki hluti af Samtökum atvinnulífsins að þá er félagsmönnum SVEIT ekki skylda til þess að fara í verkbann sem Samtök atvinnulífsins hafa sett á í þeim tilgangi að knýja fram kjarasamnig sem við höfum ekki einu sinni fengið að sjá eða kjósa um,“ segir Aðalgeir Ásvaldsson framkvæmdastjóri SVEIT.
Samtökin hafa ekki gert kjarasamning en hafa óskað eftir gerð samnings, sem Aðalgeir segir að þurfi að taka mið af sérstöðu greinarinnar. Hún sé meðal annars sú að 65 til 70 prósent vinnutíma á veitingahúsunum fari fram utan hefðbundis dagvinnutíma.
Frétt birt á vef RÚV:
https://www.ruv.is/frettir/innlent/2023-02-26-sveit-ekki-i-verkbanni-enda-ekki-i-sa
コメント