
Ályktun stjórnar SVEIT
Reykjavík 16.12.2024
SANNLEIKURINN UM SVEIT
Laun fastra starfsmanna hækka um 150.000 – 200.000 kr. á ári samkvæmt kjarasamningi SVEIT, Samtaka fyrirtækja á veitingamarkaði, og stéttarfélagsins Virðingar, sem ýmsir aðilar hafa reynt að gera tortryggilegan undanfarnar vikur.
Samningurinn miðar að því að styrkja dagvinnu þeirra sem gera starf í geiranum að aðalatvinnu á kostnað lausafólks sem tekur skemmri og færri vaktir. Þá kemur SVEIT ekkert að stofnun Virðingar né ræður þar nokkru. Þetta er rétt að ítreka enn einu sinni eftir harðar og óvægnar árásir verkalýðsfélagsins Eflingar, sem teknar hafa verið upp af ýmsum öðrum aðilum.
Kjarasamningsgerð milli SVEIT og Virðingar er fullkomnlega lögleg gjörð, sem sýnir sig kannski best í því að hvorki Efling né nokkuð annað verkalýðsfélag gerir minnstu tilraun til að fara lagalegar leiðir til að sýna fram á annað, heldur er hótunum beitt og ósannindum hent fram í umræðuna til að reyna að hindra að viðsemjendur á vinnumarkaði veitingageirans semji sín á milli án þeirra milligöngu.
SVEIT og Virðing fylgja landslögum í einu og öllu við samninga sín á milli, en kjarasamningur félaganna tekur mið af viðkomandi atvinnugrein og er til samræmis við samninga í veitingageiranum á öllum Norðurlöndunum, auk fyrirtækjaþáttar hins svo kallaða stöðugleikasamnings og fjölda vinnustaðasamninga Eflingar við stórfyrirtæki landsins.
Comments